Skip to main content

Colas og Óskatak undirrita verksamning

Colas og Óskatak hafa undirritað verksamning um að Colas sjái um malbikun við nýja Ölfusárbrú. Óskatak er undirverktaki ÞG-verk og sem slíkt sér félagið um jarðvegsframkvæmdir verkefnisins, þar með talið gatnagerð í verkefninu.

Óskar Ólafsson, framkvæmdastjóri Óskataks og Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland undirrituðu samninginn.

Bygging nýrrar brúar yfir Ölfusá er hluti af verkefni Vegagerðarinnar sem ber yfirskriftina „Hringvegur um Ölfus.“ Það snýst um að færa hringveginn út fyrir þéttbýli Selfoss.

Verkefni Colas er að leggja út malbikið en fyrirtækið býr yfir sérfræðiþekkingu á því sviði.

Colas fagnar því mjög að halda áfram góðu samstarfi við Óskatak sem byggst hefur upp undanfarin ár. Enn fremur að fá að taka þátt í einu mest spennandi verkefni undanfarinna ára á þjóðvegakerfi okkar undir styrkri stjórn ÞG sem er aðalverktaki verksins,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas.

Áætlað er að leggja út 200.000 fermetra af malbiki í tengslum við verkefnið eða um 30.500 tonn og fer stór hluti þess á hringveginn um Suðurlandsveg. Verður sá kafli, sem er um 60.000 fermetrar, byggður upp í þremur malbikslögum og er gert ráð fyrir að nota um 27.000 tonn af malbiki á þann kafla. Þá eru um 20.000 fermetrar sem fara í hliðarvegi, göngustíga og annað sem tengist framkvæmdinni eða um það bil 4.000 tonn af malbiki.

Verkefnið „Hringvegur um Ölfus“ snýr að byggingu 330 metra langrar brúar, nýs 3,7 km Hringvegar auk um eins kílómetra af öðrum tveggja akreina vegum. Gerð verða ný vegamót austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Markmiðið með framkvæmdunum er að auka afkastagetu Hringvegar, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi.

Verkefnið er komið á fullt skrið en aðkoma Colas að verkefninu hefst að fullu árið 2026. Gert er ráð fyrir að því ljúki með borðaklippingu þegar brúin verður opnuð fyrir umferð almennings – allt til betri vegar.

Aðrar greinar