Ónýtuvegahandbókinni ætlað að vekja athygli stjórnvalda
¡Hola!
Ónýtuvegahandbókin inniheldur greinargóða og yfirgripsmikla lýsingu á ástandi vegakerfisins, tillögur að úrbótum og vegafréttaspá fyrir landið allt. Handbókinni fylgir ýtarlegt holukort af Íslandi, sem vegfarendur geta notað til að leggja lykkju á leið sína þegar þeir ferðast um landið.
Ríkið setti aukafjárveitingu í viðhald vega í sumar sem var afar jákvætt en fjárveitingin kom heldur seint sem þýðir að framkvæmdir færast langt inn í haustið og jafnvel veturinn. Aukafjárveitingin hefði einnig þurft að vera hærri til að vinna upp það tap sem orðið hefur en gefur samt von um að við gerð fjárlaga verði meira fjármagni varið í viðhald vega en verið hefur undanfarin ár. Ónýtuvegahandbókinni sé ætlað að vekja athygli bæði ríkis og sveitarfélaga á málaflokknum.
Langt undir þeirri fjárfestingu sem nauðsynleg er
Þegar langt var liðið á sumarið var samþykkt þriggja milljarða viðbótarframlag til viðhalds vega. Þetta framlag hefur nýst til verkefna um allt land, að stórum hluta á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem viðhald var brýnast. Þetta viðbótarframlag kom ofan á 10-11 milljarða árlega fjárveitingu til viðhalds en þegar heildarviðhaldsþörf vegakerfisins er metin á bilinu 18-20 milljarðar á hverju ári gefur augaleið að þriggja milljarða viðbótarframlag dugar skammt í stóra samhenginu.
Vegakerfið heldur áfram að verða heilt á litið verra og verra með hverju árinu sem líður. Það þarf að auka heildarfjárveitingar til vegagerðar, viðhalds og endurbóta og ráðast í heildstæða enduruppbyggingu vegakerfisins.
Ástand vega versnar áfram
Áformuð framlög til viðhalds vega næstu 15 árin eru talin verða um 256 milljarðar króna, eða sem nemur á bilinu 13–17 milljörðum á ári skv. samantekt Samtaka iðnaðarins. Hin 250–300 milljarða viðhaldsskuld mun því líklega ekki lækka mikið yfir sama tímabil, þar sem árleg framlög munu að líkindum ekki anna árlegri árvissri viðhaldsþörf.