Hólabrú
Hólabrú – Malbik er framleitt úr steinefnum úr Hólabrúarnámu sem er staðsett norðan við Hvalfjarðargöng. Þetta er hefðbundið malbik sem notað er á göngustíga, plön, húsagötur og minni umferðargötur, (með umferð minna en 8.000 bíla árdagsumferð, ÁDU). Malbikið er framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8 mm, 11 mm og 16 mm, ýmist með eða án viðloðunarefna.
Steinefnin úr Hólabrú eru dökkgrá að lit og uppfyllir malbikið allar gæðakröfur skv. Alverk ’95.
Durasplitt
Durasplitt – malbik er malbik sem framleitt er úr ljósu kvars diorite sem er sér innflutt frá Noregi. Malbik úr þessu steinefni er notað á umferðarþyngri götur eða þar sem umferð er meiri en 8.000 ÁDU og einnig þar sem krafist er þeirra ljóstæknieiginleika sem efnið gefur. Efnið er ljóst og endurkastar það birtu mun betur en dökk steinefni. Malbikið er yfirleitt framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8mm, 11mm og 16mm. Malbik sem framleitt er úr Durasplitt uppfyllir allar gæðakröfur skv. Alverk ´95.
SMA-Trefjamalbik
SMA-Trefjamalbik (Stone Mastik Asphalt) er yfirleitt framleitt úr Durasplitt steinefnum ásamt trefjaefnum sem blandað er út í malbikið. SMA malbik hentar vel á umferðaþyngstu göturnar (umferð meiri en 15.000 ÁDU). SMA malbik er mjög slitþolið og hefur mikið hemlunarviðnám. Malbikið er framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8mm, 11mm og 16mm. SMA malbik uppfyllir allar gæðakröfur samkvæmt Alverk ´95.
Malbik með íblöndunarefnum
Malbik með íblöndunarefnum er malbik þar sem bætt hefur verið við íblöndunarefnum sem auka gæði malbiksins og breyta eiginleikum þess.
Sem dæmi er SBS (plast gúmmí fjölliður) sem eykur styrk og stífni malbiksins.
Annað dæmi er Sasobit vax sem einnig eykur styrk en eykur um leið þjálni við útlögn, þannig er hægt að leggja malbikið út og ná þjöppun við lægra hitastig en ella.
Rautt malbik og annað litað malbik
Rautt malbik er framleitt úr sérinnfluttum rauðum steinefnum ásamt litarefnum. En steinefnin eru með allra sterkasta móti. Þetta malbik hefur verið notað á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir sérmerktar strætisvagna- og leigubílaakreinar. Malbikið er yfirleitt framleitt í 11mm eða 16mm kornastærð. Þar sem malbikið er framleitt úr rauðum steinefnum upplitast það ekki þrátt fyrir mikla umferð. Malbikið uppfyllir allar gæðakröfur samkvæmt Alverk ´95.
Einnig er hægt að framleiða grænt malbik úr hefðbundnum steinefnum með grænu litarefni og í raun er hægt að framleiða alla liti af malbiki. Þarf að sérpanta.
Kalt viðgerðarmalbik
Kalt viðgerðarmalbik er framleitt úr steinefnum úr Hólabrúarnámu. Þetta er hefðbundið malbik blandað íblöndunarefnum sem gera það að verkum að það helst mjúkt í töluverðan tíma svo það er hægt að vinna með efnið kalt. Það hentar því vel í smáviðgerðir og til viðgerða að vetrarlagi. Efnið er hægt að geyma í lengri tíma, úti jafnt sem inni. Malbikið er framleitt í tveimur mismunandi kornastærðum þ.e. 8 mm og 11 mm.