Skip to main content

Framtíðin er hreinorkufarartæki

Framtíðin er hreinorkufarartæki

Gríðarlega spennandi verkefni segir framkvæmdastjóri Colas

Í dag undirrituðu Colas og Kraftur hf.  sem er með umboð fyrir MAN vöru- og dráttarbíla fyrsta kaupsamninginn um vetnisknúinn dráttarbíl.

Bíllinn er væntanlegur til landsins í lok árs.

Eins og gefur að skilja er um byltingu að ræða en bíllinn sem slíkur verður losunarfrír þar sem vetni, framleitt með umhverfisvænum orkugjöfum, losar ekki neinar gróðurhúsalofttegundir við bruna.

Áður höfðu félögin og nokkur önnur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á slíkum bílum til landsins í tengslum við verkefni sem Íslensk Nýorka stendur að, en nú er að koma að þessu.

„ Þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas. „Colas heldur áfram á þeirri vegferð að farartæki og bílar framtíðarinnar verði knúin umhverfisvænum orkugjöfum. Við höfum gríðarlega trú á vetninu og það verði orkugjafinn sem stærri vinnuvélar og stór vörubíla komi til með að nota, þar sem rafmagnið hentar síður. Colas hefur átt áratuga gott samstarf við Kraft og MAN bílarnir hafa reynst okkur vel. Með vetnisbíl verðum við í fararbroddi hér á landi við innleiðingu þessarar tækni“ segir Sigþór.

„Það var virkilega ánægjulegt að undirrita kaupsamning á milli Krafts og Colas um kaup á fyrsta MAN hTGX 26.520 6×4 BL SA vetnisbílnum.  Þessi kaup marka tímamót í sögu umhverfisvænna orkugjafa.  MAN hefur langa sögu um vetnisdrifna bíla, og kynntu árið 1996 fyrstu vetnisdrifnu strætisvagnana.  Með undirskrfit sinni staðfesta ráðamenn Colas stefnu sína að nota eins mikla umhverfisvæna orku og mögulegt er,“ segir Björn Erlingsson, framkvæmdastjóri Krafts hf.

Um er að ræða fullbúinn 520 hestafla dráttarbíl: Heildarþungi hans er 49 tonn og kemst 600-700 km á hverri áfyllingu.

Aðrar greinar