Skip to main content

Colas hlýtur styrki til að rannsaka sumarblæðingar og lífbindiefni í malbiki

Colas hlýtur styrki til að rannsaka sumarblæðingar og lífbindiefni í malbiki

Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar hefur veitt Colas tvo styrki upp á samtals 8,7 milljónir króna til að rannsaka mýkingarmark biks og malbiksblöndur með lífbindiefni.

Vegagerðin hefur veitt Colas styrk upp á 4,2 milljónir króna til að rannsaka hvort mýkingarmark biks hafi áhrif á sumarblæðingar. Að auki styrkir Vegagerðin rannsóknir á fjórum mismunandi lífbindiefnum í malbiksblöndur.

Vonast til að minnka sumarblæðingar á vegum

4,2 milljónir fara í að rannsaka áhrif mýkingarmarks á sumarblæðingar. Björk Úlfarsdóttir, nýsköpunarstjóri Colas, segir að Colas ætli að þróa nokkrar mismunandi þjálbiksblöndur með mismunandi biktegundum og hlutfalli af íblöndunarefnum. „Þær verða síðan prófaðar með tilliti til mýkingarmarks, seigju, stungudýptar og viðloðunar við steinefni. Síðan ætlum við í samstarfi við Borgarverk að leggja út prófunarkafla með þeim þjálbiksblöndum sem koma best út úr forprófunum,“ segir Björk.

Hún segist vera með þá kenningu að mýkingarmarkið hafi veruleg áhrif á klæðingar að sumarlagi. „Tilgangur verkefnisins er að hanna þjálbiksuppskrift með hærra mýkingarmark í von um að það minnki líkurnar á sumarblæðingum á vegum landsins,“ útskýrir Björk.

Skoða áhrif lífbindiefnis í malbiki

Þá fara 4,5 milljónir í að halda áfram að rannsaka lífbindiefni í malbiki, segir Björk. „Við ætlum að breyta mjög hörðu (50/70) biki í mjúkt (160/220) bik með lífbindiefni. Eins ætlum við að reyna að sjá hvort lífbindiefnið virki sem rejuvenator (bikvaki)“ segir Björk. Hún segist gera ráð fyrir að leggja það á umferðarlétta vegi eins og íbúðargötur. „Við ætlum að gera fjórar mismunandi malbiksblöndur og bera þær saman við hefðbundið slitlagsmalbik. Þá skoðum við hvaða áhrif það hefur á gæði malbiks að setja 50% endurunnið malbik í nýtt malbik og svo skoðum við hvort lífbindiefni virki sem bikvaki fyrir endurunna malbikið í nýju malbiki,“ segir Björk. Þetta sé allt skoðað með það að markmiði að minnka umhverfisáhrif og kolefnisspor í vegagerð án þess að það hafi áhrif á gæði.

Mikilvægt að leita nýrra leiða í vegagerð í stað biks

Björk segir að Colas hafi frá 2022 gert prófanir á lífbindiefni og það sama ár var gerð tilraunaútlögn á malbiki sem lagt var á göngustíg í Hafnarfirði með góðum árangri. Árið 2023 héldu prófanir áfram sem leiddu til þess að sumarið 2024 var hægt að leggja út tvær malbiksblöndur með tveimur mismunandi lífbindiefnum á umferðarþungan veg. Malbiksblöndurnar uppfylltu allar ströngustu kröfur sem gerðar eru til malbiks á Íslandi.

„Það voru mikilvægar niðurstöður því þróun í vinnslu hráolíu veldur því að sífellt minna verður til af biki sem notað er í vegagerð á Íslandi og því er mikilvægt að leita nýrra leiða til að fá bindiefni,“ segir Björk. Enn eigi eftir að sannreyna frammistöðu malbiks þar sem mjög hörðu biki er breytt í mjúkt bik með lífbindiefni með tilliti til hjólfaramyndunar, slitþols og vatnsnæmi og er það eitt af markmiðunum í þessu verkefni.

Aðrar greinar