Skoða áhrif lífbindiefnis í malbiki
Skoða áhrif lífbindiefnis í malbiki
Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar hefur veitt Colas styrk upp á 4,5 milljónir til að halda áfram að rannsaka lífbindiefni í malbiki. „Við ætlum að breyta mjög hörðu (50/70) biki í mjúkt (160/220) bik með lífbindiefni. Eins ætlum við að reyna að sjá hvort lífbindiefnið virki sem rejuvenator (bikvaki)“ segir Björk Úlfarsdóttir, nýsköpunarstjóri Colas.
„Við ætlum að gera fjórar mismunandi malbiksblöndur og bera þær saman við hefðbundið slitlagsmalbik. Þá skoðum við hvaða áhrif það hefur á gæði malbiks að setja 50% endurunnið malbik í nýtt malbik og svo skoðum við hvort lífbindiefni virki sem bikvaki fyrir endurunna malbikið í nýju malbiki,“ segir Björk. Hún segist gera ráð fyrir að leggja það á umferðarlétta vegi eins og íbúðargötur.
🛣️
Mikilvægt að leita nýrra leiða í vegagerð í stað biks. Björk segir að Colas hafi frá 2022 gert prófanir á lífbindiefni. Sumarið 2024 var hægt að leggja út tvær malbiksblöndur með tveimur mismunandi lífbindiefnum á umferðarþungan veg. Malbiksblöndurnar uppfylltu allar ströngustu kröfur sem gerðar eru til malbiks á Íslandi.
„Það voru mikilvægar niðurstöður því þróun í vinnslu hráolíu veldur því að sífellt minna verður til af biki sem notað er í vegagerð á Íslandi og því er mikilvægt að leita nýrra leiða til að fá bindiefni,“ segir Björk.